Audre Lorde skrifaði árið 1977, "Þögnin þín mun ekki vernda þig". Því ætla ég að fylgja hennar orðum, og mun skrifa hér um hluti sem ég þori stundum ekki að deila með öðrum – um uppruna, sjálfsmynd og samfélög.
Hér er minn fyrsti pistill, í mínum orðum og á minni íslensku (sem er ekki fullkomin, en who gives a fuck). Takk fyrir að lesa!
Það er rúmlega mánuður síðan að ég fór á hárgreiðslustofu hér í London, horfði á hárgreiðslukonuna, og sagði “I want to do a big chop”. Sekúndum seinna byrjuðu tár að streyma niður kinnarnar mínar. Ég réði engan veginn við mig, og kom varla orði að í gegnum tárin. Svo snéri hin hárgreiðslukonan á stofunni við, og kúnninn hennar líka. Og allt í einu voru þrjár manneskjur starandi á mig… hátgrátandi… yfir klippingu.
Þegar ég áttaði mig á því að ég væri í raun á hárgreiðslustofu en ekki hjá sálfræðingi, náði ég einhvern veginn að draga inn djúpan andann og biðjast afsökunar - eins og maður gerir iðulega í bretlandi.
Það er svo fyndið, bæði í bretlandi og á íslandi, þá vekur það svo miklum óþægindum hjá fólki þegar aðrir gráta í kringum mann. Það fer allt í panikk. Ég fann það að hárgreiðslukonan mín var ekki að búast við þessu þegar ég settist í stólinn, og hin hljóp til að ná í tissue fyrir mig, á meðan að kúnninn hennar horfði á mig með vorkunnarsvip. Það hefði verið fyndið að vera fluga á vegg á þessari stundu, þetta væri jafnvel góð sena í þáttum eins og Insecure með Issa Rae.
Allt saman átti þetta sér stað vegna þess að ég hafði ákeðið, eftir íhugun í dágóðan tíma, að klippa hárið mitt stutt. Ég vildi ekki krúnuraka mig, en ég vildi hafa það mjög stutt. Mig langaði til að endurnýja hárið mitt, eftir mörg ár af stanslausri baráttu við krullurnar mínar, og leyfa þeim að vaxa upp nýtt.. heilbrigðari og jafnvel fallegri. Ég sá það, og sé það ennþá, í heillindum hvernig krullurnar mínar verða þegar þær hafa vaxið aftur - endurnærðar og ferskar… eða það vona ég að minnsta kosti.
‘Big chop’ vísar sem sagt í hefð í hármenningu svartra kvenna, sem klippa hárið sitt alveg stutt til að losa sig við óheilbrigt hár sem hefur skemmst vegna hita (heat-damage), eða sléttunarmeðferðir (relaxer), og í raun bara stanslaus afskipti af hárinu okkar til að temja það að fegurðarstaðalímyndum samfélagsins.
Þegar ég sýndi hárgreiðslukonunni myndirnar sem ég hafði vistað í símanum mínum sem reffar, mynd af Haile Berry og Instagram skvís sem ég fann á pinterest, gapti hún “svona stutt!?”. Ég var frekar hissa á viðbrögðunum hennar, sérstaklega þar sem ég var nú þegar grátandi - áttaði hún sig ekki á því að hún á að vera að peppa mig í þetta? Einhvern vegin bjóst ég við því að hún væri alltaf að fá kúnna til sín sem voru í miklu uppnámi yfir hárinu sínu. Það helltust yfir mig efasemdir - á ég nokkuð að vera að gera þetta? Langar mig þetta virkilega? Mun þetta fara mér? Verð ég ekki bara eins og ungur strákur? Mun kærastanum mínum finnast ég sæt?
Hárgreiðslukonan spurði hvort ég væri viss, og mælti með að hafa hárið aðeins lengra að ofan til að byrja með svo að ég gæti mótað krullurnar með fingrunum, svokallaðar finger curls. Við komumst að niðurstöðu, ég náði mér eftir uppnámið, og þá var bara komið að þessu - að klippa hárið af.
In hindsight (þetta er svo fallegt orðatiltæki á ensku - hvernig segir maður þetta á íslensku?), ég hefði mögulega frekar átt að bóka mér tíma hjá sálfræðingi frekar en á hárgreiðslustofu, því ég held að tárin og tilfinningarnar sem brutust fram þarna á hárgreiðslustofunni, táknuðu ekki einungis kvíða yfir því sem var framundan.. stutt hár. Heldur einnig losun og úrvinnsla á tilfinnigum sem ég held að einungis svartar konur með afró hár munu þekkja.
Ég hef svo oft horft í spegil þegar ég er að gera mig til fyrir daginn, og farið að hágráta því mér þykir hárið mitt svo ljótt. Of stíft… of stórt… of svart… Það er svo skrítin togstreita að hata eitthvað svo innilega sem er náttúrulegur partur af manni. En þetta er það sem vestrænir fegurðarstaðalímyndir kenna okkur, að vera í stöðugri leit við að ‘betrumbæta’ útlit okkar.. og þá sérstaklega til að þóknast augu karlmanna, the male gaze eins og Laura Mulvey skrifar um.
The male gaze er kenning úr feminískum fræðum sem vísar til karllægt og gagnkynhneigt sjónarhorn þar sem konur eru kyngerðar í þeim tilgangi að þóknast gagnkynhneigðum karlmönnum. Mulvey setti fram þessa kenningu til að greina kvikmyndir og bókmenntir en það er hægt að greina svo margt í lífi kvenna út frá þessu, og líka hægt að skoða út frá öðrum breytum, eins og The white gaze… (meira um það síðar).
Í bókinni Disobedient Bodies, skrifar Emma Dabiri um það hvernig vestrænir fegurðarstaðalímyndir leggja áherslu á það sjónræna sem leiðir til yfirborðskenndar hugmyndir um fegurð. Þessi nálgun á fegurð skapar ómöguleg markmið þar sem við metum ekki fegurðina í því sem við höfum, heldur í því sem við stefnum að því að verða. Ég set nokkur quote hér úr bókinni því það er alltof erfitt að þýða þetta!
“Western culture has in many ways been determined by a heavily visual paradigm, which has also helped to inform the shallowness of the beauty regime.”
“We have been conditioned to believe our bodies are inherently not good enough.”
En aftur að klippingunni. Þrátt fyrir það að ég sé í námi í postcolonial-fræðum hér í Bretlandi, og hef lesið svo margt um valdaójafnvægið sem vestrænar eða evrópskar staðalímyndir skapa (þá sérstaklega í tilliti til kyns, kynþáttar, kynhneigðar o.s.frv), þá á ég enn svo langt í land með því að afgera allar þær hugmyndir sem samfélagið hefur kennt mér. Hugmyndir um hvernig ég skal haga mér sem konu. Hugmyndir um það hver ég er sem svört kona. Hugmyndir um hvernig ég fæ samþykki í samfélaginu, með því að aðlaga útlit mitt að þessum ómögulegu staðalímyndum.
Ég held mögulega að mér hafi fundist svo erfitt að klippa hárið mitt stutt, því þetta var í fyrsta skipti í langan tíma sem ég var að fara á móti ríkjandi hugmyndum um það sem er þótt fallegt. Ég gerði þetta fyrir sjálfa mig, ekki fyrir augu karlmanna eða augu hvítra… heldur fyrir mig.
Hversu frelsandi… ég get ekki mælt meira með því.. það ættu öll að prófa það einhverntímann að ögra ríkjandi hugmyndum samfélagsins… hverjum er ekki sama!
Amen!
Frábær pistill Chanel! Takk fyrir mig.